Richtersættin við Breiðafjörð

       Hér fara á eftir fara fáein atriði til upplýsingar um afdrif Samuels Jacobssonar Richter og hverjir afkomendur hans voru.
       Frá því að Samuel fermist í Slangerup 1788 og næsta áratuginn, er ekki vitað um dvalarstað hans. Á þessum árum hlýtur hann þó að hafa numið beykisiðn og komið síðan til Íslands, e.t.v. á vegum dansks verslunarfélags. Fyrstu upplýsingarnar um veru hans á Íslandi eru í kirkjubók Flateyjarhrepps 8. október 1799 þegar hann kvænist fyrri konu sinni Guðrúnu Jónsdóttur (fædd 1760 í Stykkishólmi), eftir að trúlofun þeirra hafði farið fram 16. júlí að Ósi á Skógarströnd og eftir 3 lýsingar að lögum. Var það fyrsta hjónaband þeirra beggja.

Smellið til að stækka myndina

Guðrún var dóttir Jóns Ketilssonar umboðsmanns Skógastrandajarða og konu hans Halldóru Grímsdóttur en þau voru bæði af mikilsmetnum embættismannaættum. Í Flatey fæddust Guðrúnu og Samúel þrír synir, Jacob Candemus þann 10. júní, sennilega 1800, Matthías 19. október 1801 og Magnús 22. nóvember 1803. Úr Flatey flyst fjölskyldan árið 1804 í Svefneyjar og þar fæddist fjórði sonurinn Jón 14. júlí, 1806. Árið 1807 flyst fjölskyldan síðan að Selskeri í Skálmarfirði á Barðaströnd og býr þar fram til 1819 uns hún flyst „undir Jökul“, sennilega að Arnarstapa. Í eitt ár, 1822-1823, býr fjölskyldan á Saxhóli, yst á Snæfellsnesi, en er komin í Fróðárkot, skammt austan Ólafsvíkur, 1824 og er þar sennilega fram til a.m.k. 1828. Hvar Samuel bjó næstu árin er ekki vitað. Einhvern tíma eftir 1824 missti hann fyrri konu sína. Af syni þeirra Jacobi Candemus er Richtersættin sem kennd er við Ísafjörð komin. Af Matthíasi er komin ætt sem ber ekki Richtersnafn. Börn Magnúsar eignuðust ekki afkomendur. Ekki er vitað um örlög Jóns. Elstu bræðurnir þrír stunduðu ýmist vinnumennsku eða sjómennsku.

Smellið til að stækka myndina

       Samúel er kominn til Stykkishólms 1834 og kvæntist þar 18. febrúar stúlku sem einnig hét Guðrún Jónsdóttir (fædd 3. október 1816, látin 4. febrúar 1914), dóttir Jóns "eldri" Arnfinnssonar, bónda í Akureyjum, Jónsnesi í Helgafellssveit og síðar tómthúsmanns í Stykkishólmi og fyrri konu hans Guðrúnar Ólafsdóttur.

Smellið til að stækka myndina

Samúel og Guðrún bjuggu, ásamt föður Guðrúnar, seinni konu hans og börnum, í Sólheimum (síðar Beykisbæ) í Stykkishólmi og eignuðust 7. júní 1835 soninn Samúel. Guðrún og Samúel skildu og hún flutti með soninn einhverntíma fyrir 1845 og gerðist ráðskona hjá Benedict Benedictsen rodemester og kaupmanni í Stykkishólmi en Samúel bjó áfram í Beykisbæ, ásamt fyrrverandi tengdaföður sínum og fjölskyldu hans. Samúel yngri varð síðar kaupmaður í Stykkishólmi og af honum er Richtersættin sem kennd er við Stykkishólm komin.
       Samúel eldri lést 9. maí, 1854 og hefur þá verið 83 ára. Hann var jarðsettur að Helgafelli í Helgafellssveit.


Helgafell í Helgafellssveit.
(Mynd. Sigurður H. Richter)


Smellið á myndina til að sjá hana stærri.