Nokkur orð um Roskilde

    Þar sem frásögn þessi hefst í Roskilde í Danmörku er vel við eigandi að segja aðeins frá henni fyrst.
Roskilde er mjög gamall bær er liggur nálægt miðju Sjálandi við botn Roskilde fjarðar. Þarna skárust þegar i fornöld mikilvægar samgönguleiðir á láði og legi og þarna var aðsetur konunga þegar á vikingaöld.
    Árið 1020 gerði Knútur mikli Roskilde að biskupssetri og hefst þá fyrra blómaskeið bæjarins. Var Roskilde í næstum 500 ár víðfræg miðstöð trúarlífs og menningar. Biskupsstóllinn auðgaðist mjög og við siðaskiptin átti hann fjórðu hverja jörð á Sjálandi. Geysilegur auður safnaðist til Roskilde en þar voru, auk biskupsstólsins 5, stór klaustur og margar aðrar stofnanir. Árið 1536 eru þar taldar upp 12 sóknarkirkjur.
    Þegar upp úr 1400 voru þó fyrstu merki hnignunar farin að koma í ljós, enda var Roskilde þá farin að standa höllum fæti gagnvart Kaupmannahöfn sem óx hröðum skrefum. Við siðaskiptin minnkuðu einnig völd kirkjunnar verulega og biskupssetrið var lagt niður. Klaustrin, og allar kirkjurnar utan ein, voru rifnar og bærinn skrapp smám saman saman í lítið þorp með risastórri dómkirkju. Bólusótt gekk 1711 og flýtti fyrir fólksfækkuninni og margir brunar lögðu stóra hluta bæjarins í rúst. Stærstir voru brunarnir 1731 og 1735, en í síðari brunanum eyðilagðist ráðhúsið og megnið af skjölum þess sem gerir allar athuganir á sögu bæjarins fyrir þann tíma erfiðari. Árið 1753 nær ibúatalan lágmarki, 1550 íbúar og var fátækt mikil.

Roskilde - smellið á myndina til að sjá hana stærri


Roskilde. Koparstunga 1749. Teikning Grönvold.
(Sótt á vef Det Kongelige Bibliotek í Danmörku.)


Smellið á myndina til að sjá hana stærri.




    Síðan hefur vegur Roskilde smám saman vaxið á ný. Árið 2005 var íbúafjöldi Roskilde kominn yfir 55 þúsund. Flestar gömlu göturnar eru enn til, en fátt er af húsum í Roskilde i dag sem eru fyrir tíma brunanna miklu, nema þá helst dómkirkjan sem Roskilde er hvað frægust fyrir.
     Þeim sem vilja skoða hvernig Roskilde lítur út um þessar mundir er bent á Google Earth.